Fréttir

Farsímar og tölvur tala við blinda og sjónskerta

12.2.2007

Notkun farsíma og tölva getur vafist fyrir sjónskertum þar sem notkun þeirra byggist á sjónrænni skynjun. Fyrirtækið Örtækni, sem er deild innan Vinnustaða Öryrkjabandalags Íslands, selur hugbúnað til aðstoðar blindum og sjónskertum.

Á meðal forrita sem sjónskertum og blindum býðst er skjálesari frá Dolphin. Þegar hann er ræstur les hann það sem er á skjánum. Notendur hlusta á skjálesturinn frá forritinu gegnum venjulegt hljóðkort í tölvunni eða tengja eitthvert af þeim mörgu blindraleturstækjum sem forritið styður við tölvuna, s.s. blindraletursskjá. Hugbúnaðurinn er einfaldur í uppsetningu og er samhæfður öllum Windows-stýrikerfum. Hal er eitt forritanna frá Dolphin sem gerir blindum notendum kleift að heyra í stað þess að sjá hvað er að gerast í tölvunni. Hal breytir því sem stendur á skjánum í talmál og getur einnig fært upplýsingarnar yfir á blindraletursskjá eða prentara. Þetta á ekki eingöngu við textaskjöl heldur einnig valmyndir, íkona og textaramma, í raun allt sem er að gerast á skjánum.


Infovox Desktop, sem framleitt er af Acapela Group er byggt á „diphone text-to-speech“, vél sem hefur verið þróuð með safni af röddum sem hafa verið teknar upp til að fá eðlilegra talmál. Þessi lausn, sem er byggð á Windows-stýrikerfinu, býður upp á ótakmarkaða möguleika fyrir hugbúnaðarsmiði sem vilja nota gervital til að gefa upplýsingar og þá sem vilja byggja gervital inn í forrit eða þjónustu. Infovox Desktop er mjög mikið notað í heiminum í dag, bæði í kennslu og fyrir fatlaða. Það er til á tuttugu og þremur tungumálum, þ.á m. íslensku, og hentar blindum og sjónskertum og einnig þeim sem eiga erfitt með að tjá sig og geta notað tölvu til að tala fyrir sig.

Fyrirtækið Code Factory býður hugbúnaðinn Mobile Magnifier sem stækkar alla skjámynd viðkomandi farsíma. Hugbúnaðurinn stækkar og gerir auðveldara að sjá alla hluti á skjánum, skynjar sjálfvirkt og stækkar svæðið sem verið er að skoða um leið og notandinn vafrar um skjáinn með þá stækkun sem hentar.