Fréttir

Heimsókn til Lettlands

"Work is life" ráðstefna í Ludza 10.-14. september 2014

26.9.2014

Örtækni er í samvinnuverkefni við Sveitafélagið Ludza í Lettlandi. Verkefnið gengur út á það að aðstoða þá við að kynna málefni fatlaðra og þá sérstaklega í sambandi við atvinnumál fatlaðra. Þá langar að setja á stofn vinnustaði fyrir fatlaða, eins og við erum með og einnig að hvetja atvinnurekendur til að ráða fatlaða í vinnu.

Hartmann Kr. Guðmundsson, forstöðumaður tæknivinnustofu Örtækni og Kristján Valdimarsson, framkvæmdastjóri Örva og formaður Hlutverks, fóru til Ludza í Lettlandi til að taka þátt í ráðstefnu um málefnið. Flugu þeir til Riga þar sem tekið var á móti þeim og farið með þá á hótel í gamla bænum. Farið var með þá í skoðunarferðir, bæði um Riga og víðsvegur um Lettland. Lettar eiga mikið af fornum kirkjum og köstulum, sem gaman er að skoða. Það vakti athygli að engin fjöll eru í Lettlandi, en mikið af trjám og votlendi. 

Fóru félagarnir á fund með borgarstjóranum í Ludza og ræddu málefni fatlaðra og fleira því tengt við hann. Tekið var á móti þeim með miklum virktum og þeir leystir út með gjöfum. Einnig tóku þeir þátt í mikilli sýsluhátíð í tilefni 5 ára enduskipulagningar á bæjarfélögunum í sýslunni. Það var mikið sjónarspil í litríkri skrúðgöngu, útimarkaði og úthátið með dans og söng.


Ráðsetefnan sjálf var viðameiri en við áttum von á. Mættir voru 47 manns frá ýmsum stöðum og embættum, t.d. félagsmálaráðuneytinu, mörgum bæjarfélögum, nokkrum háskólum, úr atvinnulífinu og fleira. Forsögu hafði fulltrúi háskóla sem talaði út frá mastersritgerð sinni og útskýrði stöðu atvinnumála og fatlaðra í Lettlandi. Því næst talaði Kristján um atvinnumál fatlaðra á Íslandi og sagði frá Örva. Hartmann sagði síðan frá Örtækni, hvernig rekstrinum væri háttað og hvaða áherslur Örtækni væri með í rekstrarmálum, mannauðsmálum og sölumálum.

Að þessu loknu var skipt í tvo umræðuhópa sem fjölluðu annarsvegar um hvað er jákvætt við félagsleg úrræði fyrir fatlaða og hinn hópurinn ræddi um hvað er neikvætt við það. Síðan kynntu hóparnir niðurstöðurnar og rætt var um þær á opinn og líflegan hátt. Í lokin var svo samþykkt ályktun sem var send til yfirvalda. 

Sjónvarpið var á staðnum og var með upptökur af ráðstefnunni og tók viðtal við Hartmann og Kristján, sem var svo sýnt í landssjónvarpinu.

Ferðin var í alla staði mjög vel heppnuð, bæði fróðleg og skemmtileg. Gestristni Lettanna var frábær og var farið með gestina sem konungborna. 

Þeir skoðuðu mikið, bæði landið og ýmsa staði fyrir fatlaða og lærðu heilmikið um Lettland. Einnig gátu þeir miðlað af reynslu sinni af þessum málum á Íslandi.

Lettnesk sjónvarpsfrétt  frá ráðstefnunni.
Verkefnið er fjármagnað af Íslandi, Lichtenstein, Noregi, Lettlandi og sveitarfélaginu Ludza