Fréttir

Gömul tímaritagrein

26.2.2010

Hér er til gamans grein sem bitist í Fyrirtækjablaðinu árið 2005:

Örtækni er ein af þremur deildum Vinnustaða Öryrkjabandalags Íslands en markmið þeirra er að veita fötluðum atvinnu við hæfi. Örtækni framleiðir og flytur inn allar gerðir tengikapla fyrir tölur og jaðartæki og selur bæði í heildsölu og smásölu auk þess að framleiða prentrásarkort fyrir fyrirtæki í rafeindaiðnaði.

Fatlaðir framleiða tæknivörur

„Örtækni var stofnað árið 1976 og var fyrsti vinnustaðurinn í eigu Öryrkjabandalags Íslands en síðan hafa tveir bæst við, Saumastofa Öryrkjabandalagsins, sem stofnuð var árið 1981 og Ræstingadeildin árið 1993. Þessir þrír vinnustaðir eru nefndir Vinnustaðir Öryrkjabandalags Íslands og lúta sérstakri stjórn sem tilnefnd er af framkvæmdastjórn ÖBÍ og hefur sameiginlegan framkvæmdastjóra. Hver deild fyrir sig er rekin sem sérstök eining innan fyrirtækisins,” segir Hartmann Guðmundsson, forstöðumaður Örtækni. ,,Það er skortur á atvinnutækifærum fyrir fatlaða á almennum vinnumarkaði og vinnustaðirnir hafa það markmið að veita fötluðum launaða vinnu við hæfi en einnig að veita þjálfun og stuðning til vinnu á almennum vinnumarkaði. Hjá vinnustöðunum starfa að jafnaði 42 starfsmenn og þar af eru 36 fatlaðir einstaklingu í hálfu starfi og ófatlaðir í 7 stöðugildum.” Aðstæður fatlaðra á almennum vinnumarkaði eru misjafnar og helgast mjög gjarnan af atvinnuástandinu á hverjum tíma. ,,Það eru til fyrirtæki sem hafa þá stefnu að hafa ákveðinn fjölda fatlaðra í starfsmannahópnum. Það er oftast auðveldara fyrir fólk í þessum hópi að fá vinnu þegar efnahagsástandið er gott í þjóðfélaginu en um leið og harðnar á dalnum er það gjarnan með þeim fyrstu sem látið er fara. Margir geta heilsunnar vegna aðeins unnið hlutastörf eins og hálfan daginn en á síðustu árum hafa slík störf einfaldlega ekki verið í boði á almenna vinnumarkaðnum.” Hartmann segir að það skipti fólk með skerta starfsorku eða getu gífurlega miklu máli að hafa einhverja vinnu en það komi ekki síður vel út fyrir samfélagið. ,,Vinnan veitir fólki ákveðna lífsfyllingu, því líður betur andlega sem oft verður til þess að heilsan verður betri sem aftur dregur úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Það græða í rauninni allir. Starfsfólkið nýtur betri lífskjara, greiðir sína skatta, fyrirtækið greiðir sína skatta og kostnaður ríkisins vegna heilbrigðisúgjalda minnkar.” Hartmann segir þó mikilvægt að endurskoða skerðingarákvæði örorkukerfisins, því eins og það sé núna virki það oft vinnuletjandi. “Skerðingarnar á örörkubótunum við öflun launatekna eru það miklar að fyrir suma kann það varla að borga sig fjárhagslega að vinna. Hvatningin þyrfti að vera meiri. Á því myndu allir græða.”

Lúta sömu lögmálum

Það hafa orðið miklar breytingar á starfsemi Örtækni síðan það tók til starfa á miðjum áttunda áratug síðustu aldar. „Fyrirtækið fékkst þá einkum við framleiðslu gjaldmæla fyrir leigu- og sendibifreiðar og umferðateljara. Þá vann það einnig mikið fyrir Landssímann, gerði við og yfirfór gömlu símana, þessa svörtu og gráu. Þegar ný síma- og tölvutækni fór að ryðja sér til rúms um á tíunda ártugnum fór þeim verkefnum hins vegar smám saman fækkandi. Fyrirtækið var rekið með miklum halla og um tíma var jafnvel rætt um að leggja það niður. Svo fór sem betur fer ekki heldur var farið að leita að nýjum verkefnum og ákveðið að fara út í framleiðslu á köplum fyrir tölvur og önnur jaðartæki. Efnið var flutt inn og starfsmenn smíðuðu kaplana.” Hartmann tók við starfi forstöðumanns Örtækni árið 1998 og vildi þá ásamt fleirum breyta áherslum í starfseminni. „Svo var komið að margir ódýrustu kaplarnir voru orðnir mun dýrari í framleiðslu en innfluttir. Framleiðslan stóð því ekki undir sér. Ákveðið var að fara í innflutning á þeim köplunum sem voru of dýrir í framleiðslu og ekki samkeppnishæfir í verðum gagnvart innfluttum köplum. Bölsýnismenn töldu að með slíkum innflutningi værum við að taka vinnuna frá okkar fötluðu starfsmönnum en reynslan hefur sýnt annað. Veltan hefur sexfaldast og starfsmannafjöldinn aldrei verið meiri. Staða Örtækni er í dag sú að vera eina sérhæfða fyrirtækið á Íslandi í smíði og sölu tölvu- og tengikapla. Núna starfa hér 13 starfsmenn í hálfu starfi og 2 ófatlaðir í fullu starfi en veltan skiptist nokkurn veginn jafnt á milli framleiðslu og innflutnings. ” Hartmann segir að rekstur Örtækni lúti sömu lögmálum og önnur fyrirtæki markaðarins þrátt fyrir að starfsmenn þess séu flestir með skerta starfsorku. Við erum sá vinnustaður fatlaðra sem þarf að gera hvað mestar kröfur til hæfni starfsfólks og það tekur oft langan tíma að þjálfa upp fólk. Það þarf til dæmis að hafa góðar fínhreyfingar til þess að smíða kapla og sérstaka hæfileika til þess að lóða. En hér falla líka til einfaldari verk eins og að prófa kapla, pakka og merkja. Við leggjum okkur líka fram um að skapa góðan starfsanda og rækta manngildið.” Hartmann segir samskeppnisstöðu fyrirtækisins góða. ,,Við finnum fyrir velvild sem við erum þakklát fyrir en við erum líka vel samkeppnishæfir í gæðum, verði og góðri þjónustu. Einn stærsti einstaki viðskiptavinur fyrirtækisins það sem af er árinu, er fyrirtæki sem heitir Viasis Healthcare , sem áður hét Taugagreining, en það hafði þróað búnað í sambandi við heilalínurit og hugbúnað til þess að lesa út úr þeim. Við þróuðum sérsmíðaða kapla og tengingar við tækin í samvinnu við Taugagreiningu. Þessa kapla framleiðum við nú og seljum til Viasys í Bandaríkjunum. Annar stór viðskiptavinur er fyrirtækið Medcare sem framleiðir svefnrannsóknartæki. Þar eru gerðar mjög strangar kröfur um gæði sem þarf að vera á framleiðslunni og gæðaeftirlit er mikið en við höfum verið í stöðugri þróun til þess að uppfylla skilyrðinn sem sett eru. Aðrir góðir viðskiptavinir okkar eru til tölvufyrirtækin Nýherji, Opin kerfi, EJS og Tölvulistinn, ásamt Landssímanum, OG-Vodafone, Orkuveitunni o.fl. Tölvufyrirtækin selja gjarnan kapla í einni til tveimur stöðluðum lengdum t.d. með prenturum en við sérsmíðum aðra kapla allt upp í 30 m og beina þau gjarnan til okkar viðskiptum með aðrar lengdir kapla. Þá seljum við einnig skiptibox, skjáskipta, höbba, svissa, þráðlausan búnað, USB tengihluti, milliltengi ýmiss konar og nánast allt sem tengist tölvum og tölvutengingum.”

Aukin tölvuþjónusta

Örtækni tekur einnig að sér að setja saman og lóða á prentrásarkort fyrir fyrirtæki í rafeindaiðnaði. ,,Í öllum rafeindatækjum eru svokölluð prentrásarkort með íhlutum á. Vaki ehf. er fyrirtæki sem framleiðir teljara og fleiri mælitæki fyrir fiskeldisiðnað en við framleiðum auk kapla fyrir þá öll prentrásarkort í tæki þeirra. Við tökum að okkur að raða íhlutunum á kortin, lóða þá í, ganga frá þeim og prófa virkni þeirra,” segir Hartmann. ,,Þetta er mjög sérhæfð vinna sem krefst mikillar nákvæmni því hver íhlutur þarf að fara á réttan stað. Það tekur því langan tíma að þjálfa fólk til þessarar vinnu en við erum einnig með vélbúnað til þess að raða íhlutum á ákveðna gerð af kortum (SMD kort).”
En hvernig sérðu framtíðina fyrir þér hjá Örtækni? ,,Mér finnst hún vera björt. Tæknin heldur auðvitað áfram að þróast. Þráðlausar tölvur eru nú þegar farnar að ryðja sér til rúms og margir hyggja þá að notkun kaplanna muni fara minnkandi. Það verður þó áfram að tengja þráðlausa búnaðinn á einhvern hátt við tölvuna og því tel ég að notkun þeirra muni einfaldlega breytast en við munum laga okkur að því og halda áfram að finna verkefni við hæfi. Örtækni mun áfram vera vinnustaður fyrir fatlaða.
Það er líka gaman að segja frá því að fyrirtækið er farið að sinna í meira mæli þörfum fatlaðra í tölvumálum. Síðatliðin tvö ár höfum við flutt inn, selt og kennt á hugbúnað fyrir blinda og sjónskerta í samvinnu við Sjónstöð Íslands. Er um að ræða stækkunar- og skjálestrarforrit sem les það sem er á skjánum. Einnig er tengdur við tölvuna talgervill (þulur) sem talar út það sem skjálestrarforritið les. Með þessum búnaði geta blindir og sjónskertir notað tölvur eins og sjáandi. Þessi búnaður nýtist einnig lesblindum og þeim sem geta ekki talað en geta notað tölvu til að tala fyrir sig. Einnig höfum við um nokkurt skeið sinnt innflutningi á sérpöntunum á tölvu- og hugbúnaði fyrir fatlaða í samstarfi við Tölvumiðstöð fatlaðra. Við höfum einnig verið að selja hugbúnað sem talar fyrir síma sem gerir það að verkum að blindir geta nota sms, reiknivél og leiki eins og sjáandi. Hingað til hafa fáir verið að sinna fötluðum í tölvu- og tæknimálum. Það er stefna okkar að ekki aðeins að skapa atvinnu fyrir fatlaða heldur að þjónusta fatlaða í tæknimálum í meira mæli en áður. Þetta er í hraðri þróun hjá okkur.”


Hartmann Kr. Guðmundsson er rafeindavirkjameistari að mennt. Hann hefur verið forstöðumaður Örtækni síðan 1998. Hann rak viðgerðarverkstæðið Radíóhúsið í 20 ár. Hartmann fluttist búferlum til Suður-Afríku og var við hjálparstörf hjá “Jesus Alive Ministries International” um 5 ára skeið, hóf svo störf há Örtækni þegar hann kom heim.