Fréttir

Sýning á tækjum fyrir blinda og sjónskerta.

19.5.2009

Hin árlega Sight City sýning var haldin á Sheraton hótelinu í Frankfurt í Þýskalandi, dagana 13. til 15. maí í ár, þar sem 109 aðilar frá 22 löndum, sýndu vörur sínar. Ég fór á sýninguna fyrir hönd Örtækni og ætla að stikla á stóru yfir það sem stendur upp úr hjá mér. Sýningin var mjög fjölsótt og margt að skoða, þó sneyddi ég að mestu hjá stækkunarbúnaði (CCTV) sem var nokkuð mikið af. Það var ekki mikið um nýjungar, frekar þróun á tækjum sem eru á markaðnum, í þá átt að þau verða smærri og með nýjum notkunarmöguleikum.

Stóru aðilarnir eins og HumanWare, Baum, Handy Tech, Tieman, Papenmeier og fleiri eru stöðugt að þróa tæki sín og koma með nýjar gerðir af tækjum. Papenmeier er t.d. að setja á markað mjög dýra myndavél (CCTV) sem er nákvæmari og með hærri upplausn en flestir. HumanWare er að koma með tæki fyrir daufblinda sem vinnur með lófatölvum og lofar góðu.

 

Hugbúnaðarfyrirtækin Dolphin Computer Access með Supernova, Hal og Lunar, Freedom Scientific með Jaws, Ai Squared með ZoomText og mörg fleiri vöru þarna og eru í mikilli samkeppni. Það sem mig langar til að nefna og er nokkuð nýtt, er Guide forritið frá Dolphin. Það er hannað fyrir blinda og sjónskerta notendur sem eru ekki vanir að nota tölvur, t.d. eldra fólk. Þetta forrit er hannað þannig að notandinn geti notað tölvupóstinn, skrifað bréf og fleira á mjög einfaldan hátt.

 

Farsíma er alltaf verið að þróa til að leysa fleiri verkefni af hendi. Það sem vakti athygli mína var nýtt fyrirtæki sem heitir Text Scout, er að koma með á markað GSM hugbúnað og kerfi sem virkar þannig að tekin er mynd af skjali sem er send á netþjón og er textinn sendur til baka þannig að forritið getur lesið hann. Þeir eru að þróa þetta með Code Factory sem er með Mobile Speak tal- og stækkunarbúnað í síma. Þetta er mjög sniðugt og á ekki að vera mikið mál að láta þetta virka fyrir íslenskan texta.

 

Top Braille er nýtt tæki á markaðnum. Þetta er handtæki sem notað er til að lesa texta af blaði. Skannar tækið einn staf í einu og bæði les hann upp og sýnir hann á punktaletri. Þannig að þetta hentar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda. Auðvelt er að nota tækið og staðsetja það á texta, því það leiðbeinir notandanum með hljóði og punktum. Mjög sniðugt tæki, en nokkuð dýrt að íslenska það, þar sem notuð er önnur tækni er venjulega og þarf að útbúa íslensku stafina sérstaklega.

 

Leiðsögukerfi vöktu athygli mína, bæði einföld og flókin. Kerfi sem notuð eru til að leiðbeina blindum og sjónskertum á almenningsstöðum. Búnaður sem lætur vita hvar viðkomandi er og leiðbeinir eftir þörfum. Það er meira að segja hægt að nota þetta á strætó þannig að notandinn veit hvaða strætó er að koma.